Ég las grein í mogganum í gær sem fjallaði um hugsanleg mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegs, ég man þó ekki í svipinn hver skrifaði hana. Eins og sjá má á síðustu tveimur færslum er þetta einn helsti flöskuháls morgunumferðarinnar um þessar mundir. Greinarhöfundur hafði ýmislegt til síns máls, en svo fór hann að minnast í sömu andrá á Héðinsfjarðargöngin, og hvernig þeim peningum sé illa varið.
Það virðist vera útbreiddur misskilningur meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins að jarðgangaborun úti á landi orsaki beinlínis morgunumferðina í Reykjavík, vegna þess að allir peningarnir til samgöngubóta fari í að bora göng í hvert einasta pláss. Vissulega er fjárfest í umferðarmannvirkjum úti á landi, og hugsanlega er skiptingarhlutfall fjármuna miðað við höfðatölu Reykvíkingum í óhag, en hvergi nærri eins mikið og menn vilja vera láta. Ástæða þess að hlutfallslega meira fé fer út á land í þessu tilliti er einfaldlega sú að þar er meira ógert, vegakerfið þar á lengra í land með að geta talist nútímalegt.
Ef menn vilja endilega finna einhvern til að bölva þegar þeir sitja fastir í umferð á morgnana, þá sting ég upp á skipulagsyfirvöldum í viðeigandi sveitarfélagi. Þar hafa menn setið og klúðrað málum svo árum og áratugum skiptir, og ber gatnakerfið keim af því. Þegar miðbærinn var skipulagður var ekki gert ráð fyrir að byggð myndi ná lengra en í Öskjuhlíð, enda vita vonlaust að komast inn í/út úr miðbænum á álagstímum vegna umferðarhnúta. Nú þegar allt er komið í óefni, þá er lausn Reykvíkinga á vandanum sú að troða sem mestri atvinnustarfsemi, og íbúðarhúsnæði í miðbæinn. Svo þegar menn fara til þeirra og kvarta yfir samgöngum, hvað segja þeir þá?
"Þetta er á könnu Vegagerðarinnar, þeir sjá um stofnbrautirnar"
Það hefur alltaf verið einfaldasta "lausn" embættismanna, hvar í kerfinu sem þeir eru, að kenna einhverjum öðrum um vandann. Það virkar svo sem ágætlega fyrir þá, en þessi "lausn" er engin lausn, því oftar en ekki situr eftir vandinn sem fyrir lá í upphafi, óleystur og öllum til ama.
Ef ég fæ einhver alvöru viðbrögð við þessu þá er aldrei að vita nema það verði framhald. Annars væri jafngaman að fá einhver krassandi komment.
Athugasemdir
Við eigum að gleðjast yfir hverjum vegspotta sem lagður er
hvar sem er á landinu.
Það á að bera Bústaðarveg að botnlanga, það þarf engin
gatnamót á þessum stað.
Jónas Hreinsson (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 15:59
Allar samgöngubætur eru góðar samgöngubætur, þar er ég sammála þér.
Ingvar Skúlason, 3.10.2007 kl. 19:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.