Að hrökkva eða stökkva

Eins og áður sagði er ég að flytja til Noregs eftir áramót. Ég er orðinn þreyttur á að búa í gerspilltu bananalýðveldi, og vil ekki bjóða börnunum mínum upp á það heldur. Ég mun því næstu mánuði vera að vinna í grennd við Mjösa, nánar tiltekið við tvöföldun á E6-hraðbrautinni frá Gardermoen til Hamar. Aldrei að vita nema maður sötri smá Opplands-akavit milli vinnutarna, enda kem ég mjög líklega til með að búa í Oppland. Það væri gaman að ná sambandi við aðra íslenska útlaga á sömu slóðum.

Ég hef orðið var við það að einhverjir misvitrir bloggarar hafi úthrópað okkur flóttamennina, undir þeirri forskrift að við séum að flýja og skiljum hina eftir í súpunni. Hið rétta er þó að þeir sem flytja út koma til með að gera meira til að lagfæra ástandið, heldur en þeir sem sitja eftir heima, svo fremi þeir flytji gjaldeyrinn heim. Ef ég tek sjálfan mig sem dæmi þá kem ég til með að flytja heim sem nemur um 15.000 NOK á mánuði þann tíma sem ég verð úti. Það gera 180.000 NOK á ári. Ef 10.000 Íslendingar gera slíkt hið sama, sem er sennilega vanáætlað, þá flytjum við útlagarnir inn sem nemur 1.8 milljarða NOK á ári sem samsvarar 30.8 milljörðum ISK miðað við þá gengisnefnu sem þykir vera sú rétta í dag. Munar um minna. Það versta í þessu er að maður þarf að punga stærstum hluta af þessu til bankans.

Útflutningur á vinnuafli hefur tíðkast ansi lengi erlendis, en hefur ekki verið hagkvæmur hér fyrr en nú. Ég held hins vegar að margir Íslendingar séu of stoltir til þess að láta vaða í þetta, en í mínu tilfelli er þetta klárlega besti kosturinn fjárhagslega. Að vísu er ég með praktíska reynslu og nokkra tæknimenntun, og fæ því öllu hærri laun en t.d. iðnaðarmaður eða ófaglærðir.

Heia Norge!

 

Ingvar


Tek þessu með fyrirvara

Það er víst best að tilkynna að ég ætla að fórna mér á altari gjaldeyrisguðanna, og fara til Noregs eftir áramót að vinna.

Af þessum sökum hef ég verið að fylgjast með gengisþróun undanfarið, og það er auðsjáanlegt að þessi hækkun er nær eingöngu á innanlandsmarkaði. Ef miðað er við gengi Norska seðlabankans er hækkunin öllu minni, eða rétt tæp 2%. Einnig er gengi það sem norski seðlabankinn gefur út á krónuna töluvert lægra en hið íslenska, rétt rúmlega 32 ISK/NOK. Þeir bankar í Noregi sem gefa út gengi fyrir ISK eru hins vegar með öllu hærra gengi en seðlabankinn norski, eða um 22 ISK/NOK.

Ég verð að segja að þó þessi hækkun sé jákvæð í sjálfu sér, er ansi hætt við því að hún verði skammvinn. Ég hefði heldur viljað sjá hæga og stöðuga hækkun. Það verður hins vegar forvitnilegt að sjá hvað gerist í þessum málum næsta hálfa mánuðinn eða svo.


mbl.is Krónan styrktist um 8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er það svart.....fyrst ég er byrjaður aftur

Ég er ekki að nenna að blogga um kreppu, alltof margir sem eru að því. Það hefur ýmislegt á dagana drifið undanfarið, og alltof langt mál að telja upp. En svo ég rifji upp síðustu færslu þá heitir sonur minn nú Bjarki Þór, og dafnar vel. Hann er reyndar búinn að vera með upp og niðurgang nýverið, og smellti einmitt dágóðri gusu á pabba sinn í morgun.

Merkilegt hvað maður getur misst andann við að  svara í símann. Andinn kom yfir mig nú í morgun þegar ég byrjaði að skrifa færsluna en svo hringdi síminn, og ég er nú hjartanlega andlaus.

Heyrði einn góðan í vinnunni í gær:

Hvers vegna er ekki búið að gefa út frímerki með mynd af Davíð Oddssyni?

Vegna þess að þá vissu Sjálfstæðismenn ekki hvora hliðina á að sleikja!!

 Lifið heil, blönk og atvinnulaus.......


Drengur Ingvarsson

Fyrir þá sem ekki hafa frétt það, þá er kominn drengur í heiminn, 14.5 merkur og 50.5cm. Myndarstrákur, enda góð gen innanborðs. Hann verður skírður þann 20. jan nk.

Það er allt gott að frétta, ég er í námsleyfi sem stendur, og er bara heima í góðum fíling að leika við börnin þessa dagana.

Ég heyrði í útvarpinu um daginn viðtal við samgögnguráðherra. Það er alveg merkilegt hvað við erum sammála í samgöngumálum. Það er líka greinilegt að kauði er með forgangsröðunina á hreinu, og gerir sér grein fyrir hvað þarf að gera til að stórar vegaframkvæmdir komist á koppinn. Einhverjir eru kannski ósammála mér, og þá einkum borgarbúar. Þeir um það. Þeir ættu kannski að líta sér nær og sjá þá að skipulagsyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu eiga frekar rétt á gagnrýni, að Hafnfirðingum undanskildum.

Svo eru komin drög að matsskýrslu fyrir Axarveg inn á vef Vegagerðarinnar sem er ákaflega fróðleg lesning. Mæli eindregið með lestri þeirra fyrir áhugasama.


Long time no see

Hef verið gjörsamlega laus við tíma undanfarið. Þá vill það henda að bloggun situr á hakanum.

Enn og aftur velti ég fyrir mér samgöngumálum á Höfuðborgarsvæðinu. Það er þessi algengi misskilningur að umferðin sé svona í Reykjavík og nágrenni vegna þess að allir peningar til samgöngumála fari í einhver jarðgöng úti á landi. Þetta er, í eitt skipti fyrir öll, rangt. Eins og ég sagði í síðustu færslu fer e.t.v. hlutfallslega meira fjármagn til framkvæmda á landsbyggðinni heldur en í Reykjavík. Það er hinsvegar ekki ástæðan fyrir umferðarteppunni.

Staðreyndin er sú að umferðarteppan klukkan 8 á morgnana er aðeins í aðra áttina, áleiðis til Reykjavíkur. Ef maður er ekki á ferðinni á álagstímum, eða hreinlega að aka í öfuga átt við mestu umferðina, þá er stofnbrautakerfið á höfuðborgarsvæðinu að virka þokkalega eins og það er. Þetta bendir klárlega til þess að vandinn liggi ekki hjá Vegagerðinni, sem sér um stofnbrautirnar, heldur skipulagsyfirvöldum í viðkomandi sveitarfélögum, sem skipuleggja svæðin í kringum og á milli stofnbrautanna. Það sér hver heilvita maður að dreifing atvinnusvæða annars vegar og íbúðarhverfa hinsvegar, er út úr korti. Það eru til dæmis hlutfallslega miklu fleiri störf á hvern íbúa í miðbænum heldur en í Breiðholti, sem þýðir að fleiri þurfa að komast í miðbæinn á morgnana.

meira síðar......

 


Af samgöngumálum í henni Reykjavík og annarsstaðar

Ég las grein í mogganum í gær sem fjallaði um hugsanleg mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegs, ég man þó ekki í svipinn hver skrifaði hana. Eins og sjá má á síðustu tveimur færslum er þetta einn helsti flöskuháls morgunumferðarinnar um þessar mundir. Greinarhöfundur hafði ýmislegt til síns máls, en svo fór hann að minnast í sömu andrá á Héðinsfjarðargöngin, og hvernig þeim peningum sé illa varið.

Það virðist vera útbreiddur misskilningur meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins að jarðgangaborun úti á landi orsaki beinlínis morgunumferðina í Reykjavík, vegna þess að allir peningarnir til samgöngubóta fari í að bora göng í hvert einasta pláss. Vissulega er fjárfest í umferðarmannvirkjum úti á landi, og hugsanlega er skiptingarhlutfall fjármuna miðað við höfðatölu Reykvíkingum í óhag, en hvergi nærri eins mikið og menn vilja vera láta. Ástæða þess að hlutfallslega meira fé fer út á land í þessu tilliti er einfaldlega sú að þar er meira ógert, vegakerfið þar á lengra í land með að geta talist nútímalegt.

Ef menn vilja endilega finna einhvern til að bölva þegar þeir sitja fastir í umferð á morgnana, þá sting ég upp á skipulagsyfirvöldum í viðeigandi sveitarfélagi. Þar hafa menn setið og klúðrað málum svo árum og áratugum skiptir, og ber gatnakerfið keim af því. Þegar miðbærinn var skipulagður var ekki gert ráð fyrir að byggð myndi ná lengra en í Öskjuhlíð, enda vita vonlaust að komast inn í/út úr miðbænum á álagstímum vegna umferðarhnúta. Nú þegar allt er komið í óefni, þá er lausn Reykvíkinga á vandanum sú að troða sem mestri atvinnustarfsemi, og íbúðarhúsnæði í miðbæinn. Svo þegar menn fara til þeirra og kvarta yfir samgöngum, hvað segja þeir þá?

"Þetta er á könnu Vegagerðarinnar, þeir sjá um stofnbrautirnar"

Það hefur alltaf verið einfaldasta "lausn" embættismanna, hvar í kerfinu sem þeir eru, að kenna einhverjum öðrum um vandann. Það virkar svo sem ágætlega fyrir þá, en þessi "lausn" er engin lausn, því oftar en ekki situr eftir vandinn sem fyrir lá í upphafi, óleystur og öllum til ama.

Ef ég fæ einhver alvöru viðbrögð við þessu þá er aldrei að vita nema það verði framhald. Annars væri  jafngaman að fá einhver krassandi komment.


Á undan minni samtíð

Sjá síðustu færslu.

Því er við að bæta að á þessum tiltekna stað koma nú saman stórir hlutar umferðar úr Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, og Breiðholti, allt inn á þessi skemmtilegu ljós við Bústaðaveginn.

Ég er hættur að fara Reykjanesbrautina á morgnana, maður er fljótari upp á Höfða með því að fara Vatnsendaveg, Breiðholtsbraut að Rauðavatni, og svo Vesturlandsveginn.


mbl.is Morgunumferðin þung í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alveg er þetta magnað.

Fyrir rúmu ári síðan flutti ég í Hafnarfjörð. Síðan þá hafa staðið yfir framkvæmdir á Reykjanesbrautinni, sem ég hef ósjaldan þurft að aka, enda stysta leiðin í skólann.

Í lítilli umferð tók mig 16-18 mínútur að komast þessa leið á meðan framkvæmdum stóð, nú tekur þetta 14-16 mínútur. Í mikilli umferð var ég ósjaldan 24-27 mínútur þessa sömu leið. Í gær var ég 32 mínútur á leiðinni, og álíka lengi á mánudaginn var. Maður hlýtur því að spyrja sig hvort þessi framkvæmd hafi skilað tilætluðum árangri.

Fór í bíó í gær. Astrópía er bara þrælfyndin, og þar sem var einu sinni nörd eins og Jón Gnarr, þá fattaði ég töluvert af bröndurum sem aðrir í salnum voru ekki að fatta. 3 stjörnur.


Þó fyrr hefði verið

Eins og allir alvöru áhugamenn um samgöngumál þá er ég áskrifandi að Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar. Nýjasta tölublaðið datt inn um lúguna hjá mér í dag, og ég fylltist mikilli gleði þegar ég las forsíðugreinina. Hún fjallar um framkvæmdir í Hvalnes- og Þvottárskriðum, sem eiga að hefjast innan tíðar. Það fór eins og ég vonaði, malbik verður sett á þennan kafla, sem og grjótkassar til varnar grjóthruni. Einnig verða sett þarna langþráð vegrið. Helsti gallinn við þessar framkvæmdir er að þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að Lónsheiðargöng verða sett í salt. En maður fær víst ekki allt sem maður vill.

Nú er bara að láta kné fylgja kviði og smella malbiki á þessa kafla sem eftir eru á Þjóðvegi 1, svo maður komist nú á Hótel mömmu án þess að fá nýrnalos af hristingi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband